Woods lék fyrsta hringinn á fjórum höggum undir pari

Bandaríkjamaðurinn Tiger Woods lék á alls oddi á fyrsta hring Arnold Palmer Invitational mótsins sem fór fram í dag. Woods lék á 4 höggum undir pari og er jafn í öðru sæti þegar tæplega helmingur keppenda hefur lokið leik á fyrsta hring.

Leikið er á hinum sögufræga velli Bay Hill en Woods hefur sigrað 8 sinnum á þessu móti. Hann hóf leik á 10. teig í morgun og fékk fyrsta fugl dagsins á 12. holu. Eftir sínar fyrri níu var Woods kominn á 3 högg undir par og kominn í forystu.

Slæmt upphafshögg á 3. holu, sem fór út fyrir vallarmörk, leiddi til tvöfalds skolla og Woods þá kominn á eitt högg undir par. Líkt og svo oft áður svaraði Woods fyrir það og fékk þrjá fugla á næstu fjórum holum og lauk leik á 68 höggum (-4).

Eins og áður hefur komið fram er Woods jafn í öðru sæti í mótinu. Risameistarinn Jimmy Walker er í forystu, höggi á undan Woods.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Hér að neðan er hægt að sjá nokkur af bestu tilþrifum Woods á fyrsta degi mótsins.

 

 

 

 

Ísak Jasonarson
isak@vf.is