Woods langar að vera með á Bridgestone Invitational

Eftir fínan árangur á Players mótinu er Tiger Woods kominn upp í 80. sæti heimslistans. Þessi 14-faldi risameistari sýndi margar af sínum bestu hliðum og virðist stutt í að honum takist að sigra á mótaröðinni.

Aðspurður um markmið ársins sagði Woods að móti loknu að hann langaði að spila á Bridgestone Invitational mótinu sem fer fram í ágúst en leikið er á Firestone golfvellinum. Svarið kom blaðamönnum nokkuð á óvart enda hefur Tiger jafnan verið með hærri væntingar en að komast í golfmót.

„Það eru nokkur stór mót eftir [á tímabilinu],“ sagði Woods. „Eitt af markmiðunum mínum er að vera með í Akron.“

Woods hefur átt góðu gengi að fagna á golfvellinum í gegnum tíðina en hann hefur 8 sinnum staðið uppi sem sigurvegari á vellinum.

„Ég hef unnið átta sinnum þarna og ég væri til í einn séns í viðbót, en ég þarf að gera mikið til þess að komast þangað.“

Síðasti sigur Woods kom einmitt á Bridgestone Invitational árið 2013. Til þess að Woods komist inn í mótið í þetta skiptið verður hann að vera í topp-50 á heimslistanum en líkt og áður segir er hann í 80. sæti.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is