Woods kom Reed á óvart

Bandaríkjamaðurinn Tiger Woods snýr aftur á keppnisvöllinn á fimmtudaginn þegar Hero World Challenge mótið fer fram. Fyrir mótið lék hann æfingahring með samlanda sínum, Patrick Reed, og var Reed hrifinn af því sem hann sá.

„Hann er spenntur að byrja aftur,“ sagði Reed í viðtali við Golf Channel. „Það kom mér mjög á óvart hversu mjúk sveiflan hans var og hversu langt hann er farinn að slá.

Hann hefur alltaf slegið lengra en ég en sum höggin í dag voru mjög löng. Hann stýrði boltanum mjög vel með drævernum og prófaði mismunandi boltaflug.

Fólk er búið að setja mikla pressu á hann; Mun hann koma aftur? Mun hann spila vel? Hverjum er ekki sama. Við erum bara ánægðir að hann sé kominn til baka. Það vilja allir sjá Tiger heilbrigðan.“

Ísak Jasonarson
isak@vf.is