Woods kennir þreytu um slakan árangur í Ryder bikarnum

Þegar Ryder keppnin fór fram í París dagana 28.-30. september var umræða meðal áhorfenda um heilsu Tiger Woods. Woods leit ekki jafn vel út og síðustu vikur fyrir mótið og fór svo að lokum að hann tapaði öllum fjórum leikjum sínum þegar lið Evrópu fagnaði sigri.

Woods viðurkenndi á Pebble Beach á þriðjudaginn að þreyta eftir tímabilið hefði spilað stórt hlutverk í hans frammistöðu í Ryder bikarnum.

„Þetta var bara uppsafnað eftir allt tímabilið,“ sagði Woods. „Ég var þreyttur því ég hafði ekki gert ráð fyrir því að spila svona mikið golf eftir að ég fór aftur að keppa og ofan á það þurfti ég að takast á við hitann og að léttast töluvert.“ 

Woods hefur ekki gefið út hvaða mót eru framundan hjá honum en ljóst er að hann ætlar að taka sér gott frí eftir magnað tímabil. Það er þó staðfest að hann mun mæta Phil Mickelson í einvígi í næstu viku í keppni um 9 milljónir dollara.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is