Woods í holli með Matsuyama og Day á Bay Hill

Rástímar fyrir fyrstu tvo hringi Aronld Palmer Invitational mótsins eru klárir. Fjölmargir sterkir kylfingar eru meðal keppenda í mótinu að þessu sinni en athygli flestra verður að öllum líkindum á Tiger Woods sem hefur sigrað á mótinu átta sinnum á sínum ferli.

Woods verður með þeim Jason Day og Hideki Matsuyama í holli fyrstu tvo hringina. Á fimmtudaginn hefja þeir leik klukkan 8:23 að staðartíma á 10. teig og á föstudeginum eru þeir eftir hádegi á 1. teig. 

Day hefur líkt og Tiger sigrað á þessu móti en hann vann árið 2016. Matsuyama hefur hins vegar ekki enn sigrað á mótinu.

Hér er hægt að sjá rástíma allra keppenda í mótinu sem hefst á morgun, fimmtudag.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is