Woods hafnaði margra milljóna tilboði frá Sádí Arabíu

Samkvæmt miðlinum Telegraph hafnaði Bandaríkjamaðurinn Tiger Woods 2,5 milljóna punda tilboði frá Sádí Arabíu um að spila í móti á Evrópumótaröðinni sem fer fram á næsta tímabili.

Woods átti að vera aðalnafnið í nýju móti á mótaröðinni sem fer nú fram í fyrsta sinn í Sádí Arabíu.

Gert er ráð fyrir því að neitun Woods tengist morði á blaðamanninum Jamal Khashoggi en þó er ekkert staðfest í þeim málum.

Þrátt fyrir að Woods hefur sagt nei við tækifærinu hafa kylfingar á borð við Dustin Johnson, Patrick Reed og Paul Casey allir samþykkt að vera með í mótinu.

Woods er ekki eini íþróttamaðurinn sem hefur neitað tilboði frá Sádí Arabíu en tenniskappinn Roger Federer hafnaði milljón punda tilboði vegna móts sem fer fram 22. desember í Jeddah.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is