Woods ætlar að spila minna á næsta ári

Tiger Woods ætlar ekki að keppa jafn mikið á næsta ári og hann gerði í ár þegar PGA mótaröðin fer af stað aftur í janúar.

Í samtali við pgatour.com sagði Woods að líkaminn hefði ekki þolað öll mótin í ár en hann keppti á alls 19 mótum sem er það mesta frá árinu 2013 þegar hann keppti sömuleiðis í 19 mótum.

„Ég ætla ekki að spila í jafn mörgum mótum og í fyrra,“ sagði Woods. „Ég spilaði í of mörgum mótum í ár. Hver hefði trúað því að ég kæmist í gegnum öll lokamót FedEx keppninnar? Öll þessi mót tóku sinn toll.

Þetta var einfaldlega of mikið fyrir líkamann og ég var ekki líkamlega tilbúinn. Ég var ekki búinn að æfa fyrir þetta þannig við munum gera nokkrar breytingar fyrir næsta ár.“

Woods sigraði á lokamóti tímabilsins á PGA mótaröðinni, Tour Championship, auk þess að enda í 6. sæti á Opna mótinu og 2. sæti á PGA meistaramótinu.

„Ég veit að ég get unnið því augljóslega sannaði ég það. Þetta er bara spurning um að allt toppi á réttum tíma. Viljinn og þráin hefur ekki breyst, þetta er bara spurning um að líkaminn sé viljugur til að framkvæma hlutina.“

„Það koma dagar þar sem líkaminn gerir ekki réttu hlutina en það er bara hluti af meiðslunum sem ég hef gengið í gegnum ásamt aldrinum. Eldra íþróttafólk er ekki jafn stöðugt og það var áður fyrr. Ég er búinn að vera í þessu í rúm 20 ár.“

Ísak Jasonarson
isak@vf.is