Willett: Ég er á betri stað í dag

Englendingurinn Danny Willett var að sjálfsögðu hæstánægður með sigurinn á lokamóti tímabilsins á Evrópumótaröðinni, DP World Tour Championship, sem fór fram um helgina.

Willett var þar með að fagna sigri í fyrsta sinn frá því í apríl 2016 þegar hann sigraði á Masters mótinu en þar áður hafði hann unnið fjórum sinnum á Evrópumótaröðinni. Í kjölfar mótsins meiddist Willett og þá fór hann í sveiflubreytingar sem gengu ekki alveg upp. Í dag segist hann vera á mun betri stað en á þeim tíma.

„Það er mjög sjaldgæft að vinna á mótaröðinni, í raun og veru,“ sagði Willett eftir sigurinn. „Ég er mjög ánægður að hafa unnið þau mót sem ég hef unnið undanfarin ár. Ég hef unnið nokkur stór, og auðvitað verður sigurinn á Augusta alltaf sérstakur. En þessi, eftir að hafa farið í gegnum allt unfandarið, þá fer þessi niður í sögubækurnar sem sá ánægjulegasti.

Í lok ársins 2016 lenti ég í nokkrum erfiðum meiðslum þegar ég var í kjörstöðu til að vinna Race to Dubai. Leikirnn minn var ekki á góðum stað og mig langaði ekki svo mikið að spila golf. Ég naut þess ekki að spila og mér leið illa.

Óháð því sem gerðist í dag þá er ég í mun betri stöðu í dag en þá og ég vissi að allt væri á réttri leið, ég væri að gefa allt sem ég ætti til að komast í tækifæri á sigri eins og í dag.“

Ísak Jasonarson
isak@vf.is