Webb Simpson kominn í áttunda sæti FedEx listans

Webb Simpson vann sitt fimmta mót á PGA mótaröðinni um helgina þegar að hann bar sigur úr býtum á Players mótinu. Við sigurinn tók Simpson stórt stökk á FedEx listanum, en hann fer alla leið úr 36. sæti upp í það áttunda.

Eftir helgina er hann með 1228 stig og er hann 646 stigum á eftir Justin Thomas sem situr í efsta sætinu.Simpson hefur leikið nokkuð vel það sem af er ári og hefur hann til að mynda fimm sinnum verið á meðal 10 efstu.

Staða efstu manna er ekkert breytt og er Justin Thomas enn á toppnum með 1874 stig. Næstur honum er Jason Day með 1533, þar á eftir kemur Phil Mickelson með 1348 stig. Í fjórða sætinu er Patton Kizzire með 1329 stig og að lokum er það Patrick Reed sem er í fimmta sætinu með 1315 stig.