Wallace með nauma forystu í Dubai

Matt Wallace er með eins höggs forystu eftir tvo hringi á lokamóti tímabilsins á Evrópumótaröð karla sem fer fram í Dubai.

Wallace er samtals á 11 höggum undir pari en hann átti besta hring dagsins í dag þegar hann lék á 7 höggum undir pari.

Tímabil Wallace hefur verið hreint út sagt frábært en hann er í leit að sínum fjórða sigri núna um helgina. Fyrr á tímabilinu sigraði hann á Made in Denmark mótinu, BMW International Open og Hero Indian Open.

Jordan Smith, Adrian Otaegui og risameistarinn Danny Willett deila öðru sætinu á 10 höggum undir pari.

Annar Masters sigurvegari, Patrick Reed, er í 5. sæti á 9 höggum undir pari.

Rory McIlroy og Tommy Fleetwood eru svo meðal kylfinga sem deila 6. sætinu á 8 höggum undir pari.

Francesco Molinari, sem er í forystu á stigalistanum fyrir lokamótið, lék ekki vel í dag og er jafn í 27. sæti í mótinu þegar það er hálfnað.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is