Við Axel höfum smellpassað saman

- segir Birgir Leifur Hafþórsson en hann og Axel Bóasson leika við Spánverja í undanúrslitum á Evrópukeppni liða á Gleneagles í Skotlandi

„Við vorum að spila virkilega vel en náðum ekki að hrista þá af okkur þannig að úr varð spennandi hringur. Við Axel höfum smellpassað saman og erum auðvitað í skýjunum yfir því að vera komnir í undanúrslitin,“ sagði Birgir Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur en hann og Axel Bóasson unnu alla þrjá leiki þeirra í riðlakeppninni á Evrópukeppni liða á Gleneagles í Skotlandi. Þeir mæta Spánverjum í undanúrslitun, þeim David Borda og Santiago Ben Tarrio.

Birgir Leifur segir að hringurinn gegn Norðmönnunum hafi gengið vel. Þeir Axel hafi bakkað hvorn annan upp en báðir leikið gott golf. Leikurinn við Norðmenn var alger úrslitaleikur í riðlinum um hvort liðið kæmist í undanúrslitin. Spennan var mikil og Sky sjónvarpsstöðin fylgdi okkur stóran hluta á seinni 9 holunum.“
Birgir segir að þeir hafi mest náð tvegga holu forskoti en svo hafi Norðmenn jafnað. Axel hafi hins vegar komið Íslandi yfir aftur með fugli á 16. braut sem er par 5. Sautjánda féll en þar munaði litlu að Birgir Leifur kláraði fugl. Á átjándu slógu Íslendingarnir mjög góð högg en Norðmönnum voru mislagðar hendur og eftir slæm upphafshögg og vesen gáfu þeir holuna. Niðurstaðan, íslenskur sigur með tveimur holum.

Hvernig settuð þið upp ykkar leik í þessum hreina úrslitaleik riðilsins?
„Axel sló alltaf á undan og ég sagði honum að nýta högglengdina. Þetta virkaði vel. Við komum okkur í mörg góð færi og hefðum átt að klára þennan leik fyrr. En við vorum mjög þolinmóðir og náðum vel saman í þessum leik og hinum. Púttuðum oft fyrir fuglum. Þetta var mjög gaman.“

Laugardagurinn verður með öðru formi en þá leika kynin saman í liði. Birgir Leifur og Valdís Þóra leika saman og Axel og Ólafía í hinu íslenska liðinu. Fyrirkomulagið er höggleikur og samanlagt skor. Þetta er svona mót í mótinu því á sunnudagsmorgun hefjast undanúrslitin hjá körlum og konum. Þar hefja okkar menn leik milli kl. 7 og 8.

Nú hafið þið ekki verið upp á ykkar besta á mótaröðunum úti. Hefur þetta verið góð tilbreyting frá því?
„Já, þetta var gott fyrir okkur báða. Ég hef verið að leika gott golf í mótunum sem ég hef leikið í en mómentið einhvern veginn ekki komið. Það er svo stutt á milli. Þegar slíkt gerist vill maður verða óþolinmóður og ég held að það sama hafi verið hjá Axel. Vonandi hjálpar þessi frammistaða okkur eitthvað í framhaldinu. Sjálfstraustið er stór þáttur í þessu eins og flestir vita.“

Hvaða kylfingar eru þetta á mótinu?
„Þetta eru ekki stærstu nöfnin en þó eru nokkur stór innan um. Þetta eru þó allt kylfingar sem hafa verið að leika á tveimur efstu mótaröðunum í Evrópu, Áskorenda og Evrópumótaröðinni. Þarna eru þekktir kappar eins og Englendingurinn Lee Slattery, Svíinn Johan Edfors en hann var fyrir fáum árum einn besti kylfingur í Evrópu, og fleiri. Hjá kvenfólkinu eru stór nöfn eins og nýkrýndur meistari á Opna breska, Georgia Hall og og Laura Davies, einn þekktasti kvenkylfingur sögunnar.“

Gleneagles er eitt þekktasta golfsvæði í Evrópu og eitt það elsta. Skemmst er að minnast á að Ryder Cup fór þar fram 2014 og Solheim Cup fer þar fram á næsta ári. Á svæðinu eru þrír golfvellir en Evrópukeppnin hefur verið leikin á Ryder vellinum, PGA Cenenary vellinum. Glæsilegt hótel og veitingastaðir og aðstaða öll er fyrsta flokks. Nýr eigandi svæðisins hefur sett fúlgur fjár í endurbætur og segir Birgir að aðstaðan sé mögnuð.
„Þetta er bara geggjað, skemmtilegur Ryder-andi á svæðinu, golfvöllurinn, klúbbhúsið, hótelið og bara allt hérna rosalega flott. Umgjörðin um mótið er mjög vegleg en þetta er í fyrsta sinn sem golfíþróttin kemur inn í þetta Evrópumót. Sagt er að það verði áfram. Það var gaman að komast inn á mótið,“ sagði Birgir Leifur.

Sýnt verður frá golfi á Evrópumótinu á RÚV laugardag og sunnudag. Mjög líklega munum við sjá okkar fólk, alla vega á sunnudag þar sem Axel og Birgir eru komnir í undanúrslitin og munu því leika tvo hringi. Úrslitaleikur og leikur um 3. sætið verður eftir hádegi á sunnudag.

PGA Centenary golfvöllurinn en þar fór Ryder Cup fram árið 2014, Solheim Cup verður þar 2019.