Verður Harrington fyrirliði Evrópu í næstu Ryder keppni?

Samkvæmt Golf Channel er Írinn Padraig Harrington talinn líklegastur til að verða fyrirliði Evrópu þegar Ryder bikarinn fer næst fram, árið 2020. Mótið mun fara fram á Whistling Straits golfvellinum í Wisconsin fylki þar sem PGA meistaramótið hefur meðal annars farið fram.

Fyrirliði Evrópu verður valinn í desember á þessu ári þegar þeir Keith Pelley, framkvæmdastjóri Evrópumótaraðarinnar, og síðustu þrír fyrirliðar Evrópu (Thomas Björn, Paul McCinley og Darren Clarke) hittast til þess að taka lokaákvörðun.

Harrington þykir besti kosturinn í boði en hann er þrefaldur risameistari og hefur spilað á PGA mótaröðinni í Bandaríkjunum undanfarin 15 ár. Þá hefur Harrington verið varafyrirliði Evrópu í undanförnum þremur keppnum og veit því um hvað málið snýst.

Lee Westwood kemur einnig til greina en honum virðist hafa snúist hugur þar sem hann sagði í viðtali við Telegraph á dögunum að hann einbeiti sér að Róm þar sem Ryder bikarinn fer fram árið 2022.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is