Vélmenni til starfa í Hraunkoti

Golfklúbburinn Keilir hefur tekið í notkun tvær nýjar vélar til að tína æfingabolta og slá grasið á  æfingarsvæði klúbbsins.

„Tækninni fleygir fram og að sjálfsögðu tökum við þátt í þróuninni,“ segir á heimasíðu Keilis. „Vélarnar eru algjörlega sjálfvirkar og skila boltunum beint í sölukerfið í Hraunkoti án þess að mannshendin komi þar við sögu, ásamt því að slá svæðið. Þetta mun skila sér í mun snyrtilegra æfingasvæði og koma í veg fyrir boltaleysi.“

Vélarnar hafa nú þegar fengið nafn til að aðgreina þær frá öðrum starfskröftum í Hraunkoti og munu þær hljóta nafngiftina Sigursteinn fyrsti og Sigursteinn annar og mynda þær teymið „SS“. Notkunin verður ekki mikil í vetur en gert er ráð fyrir því að sjá vélarnar strita allan sólarhringinn næsta sumar.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is