Veðurguðirnir lokuðu Öndverðarnesvelli

Veðurguðirnir lokuðu Öndverðarnesvelli í nokkrar klukkustundir þegar þeir ákváðu að vökva hann hressilega um hádegisbilið í um 3 klukkustundir á frídegi verslunarmanna. Völlurinn var full bókaður í allan dag en ráshópar frá um kl. 11 til 15 gátu ekki leikið á vellinum vegna mikillar rigningar. Vatn þakti stóra hluta brauta, flata og jafnvel teiga.

Kylfingar byrjuðu þó að tínast á völlinn aftur um kl. 15 og freistuðu þess að leika. Þá voru enn pollar víða um völlinn, t.d. á 4., 7. og 16. braut sem sjá mátti frá veginum inn að golfvellinum. Fréttamaður kylfings.is var á ferðinni og tók þar þessar myndir sem sýna vel bleytuna sem hafði safnast saman á Öndverðarnesvelli.

Völlurinn er mikið sóttur alla Verslunarmannahelgina sem og lang flestar helgar í sumar en einnig er oft góð að sókn virka daga yfir hásumarið þegar fólk er í fríi. Ástand vallarins er með besta móti en sama er hægt að segja um marga velli á Suðurlandi sem kylfingur.is hefur spilað að undanförnu.

Vænir pollar á 16. brautinni sem er par 5 braut.

Séð yfir 7. brautina.

Það voru meira að segja pollar á átjánda teignum.