Valdís Þóra: Völlurinn frábær en fljótur að refsa

Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr GL, endaði í 61. sæti á Lalla Meryem Cup mótinu sem fór fram á Evrópumótaröðinni um helgina. Spilamennska Valdísar var sveiflukennd en eftir frábæran fyrsta hring tóku við þrír slakir hringir í röð.

Valdís skrifaði færslu á Facebook síðu sína eftir mót helgarinnar þar sem hún fór yfir málin.

„Þessi Marokkó ferð fór heldur betur suður á bóginn eftir gott start. Mér leið mjög vel á æfingadögunum og fyrsta deginum yfir öllu saman en á öðrum hring fóru að koma högg sem kostuðu mig ansi mikið. Þessi völlur er alveg frábær en hann er settur þannig upp að ef að þú ert ekki alveg á boltanum þá fer hann illa með þig ansi fljótt. Brautirnar þröngar, röffið hátt og grínin lítil og ég fékk nú aldeilis að finna fyrir því.

Ég var hreinlega orðin hrædd að slá boltann á síðustu hringjunum sem gerði það auðvitað að verkum að allir gamlir vanar létu ljós sitt skína mér til mikillar „gleði“. Vippin mín voru hins vegar mjög góð yfir höfuð og sem betur fer því annars veit ég ekki hvar þetta hefði endað.“

Valdís leikur næst á mótaröðinni 14. maí en hún er skráð til leiks í úrtökumót fyrir Opna bandaríska mótið.

„Ég er á heimleið núna og mun nota næstu vikur í að hitta fjölskyldu og vini og vinna vel í hlutunum með mínum þjálfurum fyrir næsta mót sem er 14. maí.“

Ísak Jasonarson
isak@vf.is