Valdís Þóra verður með um helgina á LPGA mótaröðinni

Nú fyrir skömmu var Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr GL, að tryggja sér þátttökurétt á LPGA mótaröðinni um helgina. Mótið sem Valdís verður með á er ISPS Handa Women's Austalian Open mótið og eru margar af bestu konum heims á meðal þátttakenda. Það verða því tveir íslenskir kylfingar á meðal þátttakenda, en Ólafía Þórunn verður einnig með.

Heimasíða Evrópumótaraðar kvenna staðfesti þetta nú í morgun. Um var að ræða 18 holu undankeppni sem haldin var á East Course at The Grange og voru þrjú sæti í boði.

Ásamt Valdísi voru það þær Kiwi Liv Cheng og Justine Dreher sem fengu þátttökurétt. Þær léku allar 69 höggum, eða þremur höggum undir pari.

Kylfingur.is vill óska Valdísi til hamingju með þennan árangur. Þetta verður í fyrsta skipti sem bæði Valdís og Ólafía leika á sama LPGA mótinu.