Valdís Þóra varð að hætta leik

Valdís Þóra Jónsdóttir hóf í dag leik á Opna suður-afríska mótinu sem er hluti af Evrópumótaröð kvenna. Hún þurfti aftur á móti að draga sig úr leik eftir sex holur vegna meiðsla.

Meiðslin eru ekki ný af nálinni en um síðustu helgi, þegar hún náði sínum besta árangri (5. sæti), talaði hún um að hún hefði verið að glíma við meiðsli í baki undanfarnar vikur og mánuði. 

Eftir sex holur ákvað Valdís Þóra að hætta leik þar sem hún átti orðið erfitt með að sveifla kylfunni.

Valdís hefur ákveðið að taka ekki þátt í næsta móti sem fer fram í Jórdaníu og heldur þess í stað heim til Íslands í meðhöndlun.