Valdís Þóra lék á 75 höggum á fyrsta hring í Ástralíu

Eins og greint var frá í gærkvöldi hóf Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnumaður úr GL, leik á ActewAGL Canberra Classic mótinu, en mótið er hluti af Evrópumótaröð kvenna. Valdís lék fyrsta hringinn á 75 höggum, eða þremur höggum yfir pari og er jöfn í 59. sæti þegar þetta er skrifað.

Valdís hóf leik á 10. teig á hringnum og var byrjunin erfið hjá henni. Hún fékk tvo skolla strax á fyrstu tveimur holunum. Hún náði aðeins að laga stöðu sína áður en fyrri níu holunum lauk, með tveimur fuglum á 15. og 18. braut, en hún fékk einnig einn skolla á 17. 

Valdís byrjaði síðari níu holurnar á því að fá skolla, áður en hún fékk þrjú pör. Á síðustu fimm holunum fékk hún tvo skolla til viðbótar ásamt einum fugli. Síðari níu holurnar lék hún á tveimur höggum yfir pari og samtals hringinn á þremur höggum yfir pari, eða 75 höggum.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.