Valdís Þóra lék á 74 höggum

Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnkylfingur úr GL, lék á 74 höggum á þriðja hring ISPS Handa Women's Australian Open mótsins. Hún er eftir daginn jöfn í 50. sæti á samtals tveimur höggum yfir pari.

Valdís hóf leik á fyrstu holu í dag og byrjaði hringinn með látum. Hún fékk þrjá fugla á fyrstu fjórum holunum og var því komin á þrjú högg undir par. Á fimmtu fékk hún síðan skolla og næstu þrjár holurnar fékk hún par og var því á tveimur höggum undir pari eftir átta holur.

Þá kom slæmur kafli hjá Valdísi, en hún fékk tvöfaldan skolla bæði á níundu og 10. holu og svo kom skolli á 12. holunni. Hún var því allt í einu komin á þrjú högg yfir par. Síðustu sex holurnar lék hún á einu höggi undir pari, fékk tvo fugla og einn skolla. 

Hún lék því á 74 höggum, eða tveimur höggum yfir pari og er eftir daginn á samtals tveimur höggum yfir pari jöfn í 50. sæti.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.