Valdís Þóra lék á 74 höggum í Indlandi

Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr GL, hóf í nótt leik á Hero Women´s Indian Open mótinu og lék hún fyrsta hringinn á 74 höggum. Mótið, sem fer fram í Delí í Indlandi, er hluti af Evrópumótaröð kvenna og er þetta 15. mótið sem Valdís tekur þátt í. 

Valdís hóf leik á 10. braut í nótt og var byrjunin ekki eins og best verður á kosið. Hún lék fyrri níu holurnar á þremur höggum yfir pari. Hún fékk fjóra skolla, einn fugl og restina pör á fyrri níu holunum.

Á síðari níu holunum spýtti Valdís töluvert í lófana og lék þær á einu höggi undir pari. Hún fékk tvo fugla, einn skolla og restina pör. Hún lék því hringinn á samtals tveimur höggum yfir pari, eða 74 höggum. Valdís er eftir hringinn jöfn í 40. sæti, en margar eiga enn eftir að ljúka leik.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.