Valdís Þóra lék á 71 höggi

Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr GL, var rétt í þessu að ljúka leik á öðrum hring á Omega Dubai Ladies Classic mótinu. Mótið er lokamót ársins á Evrópumótaröð kvenna og er leikið á Emirates Golf vellinum. Valdís lék flott golf í dag og kom í hús á 71 höggi og bætti sig því um fjögur högg milli hringja.

Valdís hóf leik á fyrstu braut og byrjaði daginn á því að fá skolla. Hún náði þó að vinna það fljótt til baka með fugli á þriðju holu. Skolli á sjöundi og fugl á níundu gerði það að verkum að hún lék fyrri níu holurnar á parinu.

Hún byrjaði síðari níu holurnar á að fá tvo fugla í röð og fékk því þrjá fugla í röð með fuglinum á níundu. Þá var Valdís komin á tvö högg undir par og í góðum málum upp á að tryggja sig gegnum niðurskurðinn. Hún fékk þó einn skolla til viðbótar á 15. holunni og lauk því leik á einu höggi undir pari, eða 71 höggi. 

Valdís endaði því einu höggi frá því að komast í gegnum niðurskurðinn og hefur hún þá lokið leik á Evrópumótaröðinni þetta árið, en þetta var lokamót ársins.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.