Valdís Þóra lék á 71 höggi og er í toppbaráttunni

Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr GL, var rétt í þessu að klára annan hring VP Bank Ladies Open mótsins, en mótið er hluti af LET Access mótaröðinni. Valdís lék hringinn í dag á 71 höggi, eða einu höggi undir pari og er eftir daginn jöfn í 7. sæti.

Valdís hóf leik á 1. teig og fékk hún par á fyrstu átta holunum. Hún endaði fyrri níu holurnar á að fá fugl og lék þær því á einu höggi undir pari.

Á síðari níu holunum fékk Valdís tvo fugla og tvo skolla, og lék þær því á parinu. Hún er því samtals á þremur höggum undir pari, en hún lék hringinn í gær á 70 höggum (-2).

Niðurskurðurinn í mótinu miðaðist við kylfinga á þremur höggum yfir pari og betra skori.

Meghan MacLaren er í efsta sæti á sex höggum undir pari, og er því Valdís aðeins þremur höggum á eftir. Þriðji hringurinn verður leikinn á morgun en það er lokahringur mótsins.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.