Valdís Þóra leikur í Tékklandi um helgina

Atvinnukylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir er meðal keppenda á móti helgarinnar á LET Access mótaröðinni sem fer fram í Tékklandi. Mótið ber heitið AXA Czech Ladies Challenge og er sjötta mót tímabilsins á mótaröðinni.

Valdís Þóra er með þátttökurétt á Evrópumótaröðinni en hún hefur þar að auki leikið á tveimur mótum á LET Access mótaröðinni það sem af er ári. LET Access er næst sterkasta mótaröð Evrópu.

Valdís hefur leik klukkan 8:33 að staðartíma á morgun, fimmtudag, í Tékklandi. Hún hefur leik á 10. teig og er í holli með Natalia Escuriola frá Spáni og Stefania Avanzo frá Ítalíu.

Alls eru leiknir þrír hringir í mótinu og er skorið niður eftir tvo þeirra. Hér verður hægt að fylgjast með skori keppenda í beinni.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is