Valdís Þóra lauk leik jöfn í 57. sæti

Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr GL, lauk í nótt leik á ISPS Handa Women's Australian Open mótinu, en mótið var hluti af LPGA mótaröðinni. Valdís lék lokahringinn á 74 höggum og endaði jöfn í 57. sæti.

Hún byrjaði hringinn á fyrstu holu og var ekki lengi að fá fyrsta fuglinn, en hann kom strax á annari holu dagsins. Valdís fékk svo skolla og fugl á næstu tveimur holum. Tvöfaldur skolli á fimmtu holunni gerði það að verkum að hún var komin á eitt högg yfir par og endaði hún fyrri níu holurnar á því skori.

Á síðari níu holunum var hún aðeins búin að fá pör og einn fugl eftir sjö holur. Á 17. holunni lenti hún svo í því að fá tvöfaldan skolla og þar við sat. Hringinn endaði hún á 74 höggum, eða tveimur höggum yfir pari og mótið endaði hún á fjórum höggum yfir pari jöfn í 57. sæti.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.