Valdís Þóra: Fyrstu holurnar voru skrýtnar

Valdís Þóra Jónsdóttir lék fyrsta hringinn á Estrella Dramm mótinu á Evrópumótaröðinni á 3 höggum undir pari og er jöfn í 7.-10. sæti, einungis tveimur höggum á eftir efstu konu.

Byrjun hringsins lofaði hins vegar ekki góðu en eftir 6 holur var Valdís á 4 höggum yfir pari og hafði fengið fjóra skolla í röð.

„Þessar fjórar holur (3.-6.) voru mjög skrýtnar,“ sagði Valdís og hló. „Tvisvar sinnum átti ég hálf vonlaus glompuhögg inn á flöt þar sem ég missti innáhöggin á vitlausu megin. Á 5. holunni var hins vegar bara hallærislegt að fá skolla þar sem ég var einungis 29 metra frá pinna eftir upphafshöggið.

Þetta voru mjög skrýtnar holur og kannski vantaði bara smá uppá einbeitinguna.“

Valdís setti svo í fluggír eftir 6. holuna og lék síðustu 12 holurnar á 7 höggum undir pari og kom sér í toppbaráttuna.

„Ég núllstillti mig eftir þessar holur og byrjaði að slá mun betur og pútta vel. Ég var með mjög góðan hraða á grínunum.

Þegar ég missti högg þá kom það ekki að sök þar sem ég náði að bjarga mér vel. Það blés frekar mikið á hringnum sem gerði manni erfitt fyrir en það var samt ekkert hræðilegt.“


Skorkort Valdísar.

Valdís fékk frábæran örn á 16. holunni og var þá komin á þrjú högg undir par.

„Örninn kom eftir 16 metra pútt með miklu breiki. Púttið dúndraðist í holuna, hoppaði aðeins upp, lenti á bakkanum og fór ofan í. Ég hló bara og baðst afsökunar á því hversu ljótt þetta hafi verið en það var mjög gaman að setja svona langt pútt í holu.“

Valdís Þóra fer út klukkan 7:15 á morgun á öðrum hringnum. Hún hefur leik á 10. teig en hér er hægt að sjá upplýsingar um mótið.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is