Valdís Þóra enn í toppbaráttunni

Valdís Þóra Jónsdóttir lék á 72 höggum á þriðja hring NSW Open en mótið er hluti af Evrópumótaröð kvenna. Eftir daginn er Valdís fallin úr efsta sætinu niður í það þriðja, tveimur höggum á eftir efstu konum.

Á hringnum í dag fékk Valdís þrjá fugla, fjóra skolla og restina pör. Hún lék fyrri níu holurnar á parinu þar sem hún fékk tvo fugla og tvo skolla. Á síðari níu holunum var hún komin á högg undir par en tveir skollar á síðustu fjórum holunum þýddu að hún endaði hringinn á höggi yfir pari. 

Eftir daginn er Valdís Þóra samtals á átta höggum undir pari og er alls ekki búin að spila sig úr baráttunni. Þær Meghan MacLaren og Lynn Carlsson eru jafnar í efsta sætinu á 10 höggum undir pari. Valdís kemur svo næst, ásamt tveimur öðrum, á átta höggum undir pari.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.