Valdís Þóra enn í forystu

Valdís Þóra Jónsdóttir lék á 70 höggum á öðrum degi NSW Open mótsins sem er hluti af Evrópumótaröð kvenna. Hún er fyrir vikið með tveggja högga forystu á næsta kylfing.

Eins og kom fram í gær lék Valdís hreint út sagt frábært golf þar sem hún kom í hús á 63 höggum, eða átta höggum undir pari. Á hringnum í dag var Valdís um tíma komin tvö högg undir par en slæmur kafli um miðbikið kom henni aftur niður á parið. Hún endaði hringinn á fugli og því á einu höggi undir pari.

Samtals er Valdís á níu höggum undir pari. Það er hin þýska, Karolin Lampert, sem er í öðru sæti á sjö höggum undir pari en hún lék á 65 höggum í dag.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.