Valdís Þóra efst þrátt fyrir bakmeiðsli

Valdís Þóra Jónsdóttir er með þriggja högga forystu eftir fyrsta hringinn á Women's NSW Open sem hófst í nótt á Evrópumótaröð kvenna.

Valdís Þóra lék fyrsta hringinn á 8 höggum undir pari en nánar er hægt að lesa um hringinn með því að smella hér.

Á heimasíðu Evrópumótaraðarinnar er fjallað um flotta byrjun Valdísar sem kemur þrátt fyrir bakmeiðsli sem hafa verið að plaga hana í nokkrar vikur.

„Ég hef fundið fyrir eymslum í baki undanfarnar fimm vikur þannig að ég ákvað í þessari viku að ég ætlaði að sveifla mjög rólega,“ sagði Valdís Þóra sem átti erfitt með að standa upp úr rúmi fyrir fyrsta hringinn „Ég hélt boltanum í leik og sló mörg góð járnahögg á flatirnar og setti mörg góð pútt í holu.

Af því að bakið hefur verið að trufla mig mikið ætla ég að halda áfram að taka því rólega og fara út á völl með opinn huga.“

Valdís átti að vera með í Jordan Mixed Open sem fer fram í apríl en vegna meiðslanna hefur hún hætt við þátttöku í mótinu. Að sögn heimasíðu LET heldur Valdís heim eftir mót helgarinnar til Akraness þar sem hún ætlar að hitta lækni.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is