Valdís Þóra byrjaði vel í Marokkó

Atvinnukylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir, GL, hóf í dag leik á Lalla Meryem Cup mótinu sem fer fram á Evrópumótaröð kvenna í golfi.

Valdís lék fyrsta hring mótsins á höggi undir pari og er jöfn í fjórða sæti þegar um helmingur kylfinga hefur lokið leik á fyrsta degi.

Valdís hóf leik á 10. teig í morgun og fór ekki svo vel af stað en eftir fimm holur hafði hún fengið tvo skolla og þrjú pör. Þá tók við frábær kafli þar sem hún lék næstu 8 holur á fjórum höggum undir pari.

Íslandsmeistarinn bætti svo við sig einum skolla áður en hringnum lauk og niðurstaðan 71 högg.


Skorkort Valdísar.

Alls eru leiknir fjórir hringir í mótinu og er skorið niður eftir tvo. Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is