Valdís og Guðrún komust ekki á Opna bandaríska mótið

Í gær, mánudag, fór fram úrtökumót fyrir Opna bandaríska mótið í golfi, eitt af risamótunum fimm í kvennagolfinu. Tveir íslenskir kylfingar voru á meðal keppenda að þessu sinni, þær Valdís Þóra Jónsdóttir og Guðrún Brá Björgvinsdóttir.

Alls voru leiknir tveir hringir í mótinu og komust að því loknu fjórir kylfingar beint á Opna bandaríska mótið sem fer fram dagana 29. maí - 3. júní.

Guðrún Brá lék hringina tvo samtals á 13 höggum yfir pari (78,79) og endaði í 39. sæti af 71 keppanda. Valdís, sem var í ágætri stöðu eftir fyrri hringinn, lék á 14 höggum yfir pari (74,84) og endaði í 42. sæti.

Linn Grant, Catriona Matthew, Mel Reid og Sarah Schober komust áfram á Opna bandaríska mótið en þær enduðu í fjórum efstu sætunum. Grant, sem er áhugakylfingur, sló í gegn og lék á 7 höggum undir pari.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is