Valdís: Lokahringurinn einkenndist af þreytu

Valdís Þóra Jónsdóttir endaði í 21. sæti á Investec SA Women's Open mótinu sem fram fór um helgina á Evrópumótaröð kvenna í golfi. 

Eftir tvo hringi í mótinu var Valdís jöfn í 4. sæti og til alls líkleg. Hún náði þó ekki að sýna sitt rétta andlit á lokahringnum og kom inn á 76 höggum eða 4 höggum yfir pari.

Nú tekur við kærkomin hvíld hjá þessum frábæra kylfing en næsta mót á dagskrá hjá henni fer fram í Marokkó dagana 19.-22. apríl.

„Síðasti hringurinn í Suður-Afríku var ekki góður,“ sagði Valdís á Facebook síðu sinni eftir mótið. „Þetta eru búnar að vera langar og strangar 6 vikur á ferðalagi. 6 mót og einn qualifier [Valdís tók þátt í úrtökumóti fyrir LPGA mót].

Skiljanlega er ég ansi svekkt með spilamennsku mína í dag [laugardag] sem einkenndist hreinlega af þreytu og ekkert gekk upp. Það er stundum svo. Ég er að bíða eftir fluginu mínu heim núna og fæ þá smá pásu til að endurhlaða batteríin, sjá fjölskyldu og vini og æfa með þjálfurunum mínum.“

Ísak Jasonarson
isak@vf.is