Valdís í fjórða sæti fyrir lokahringinn í Suður-Afríku

Atvinnukylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir, GL, lék glæsilegt golf á öðrum hringnum á Investec SA Women's Open mótinu þegar hún kom inn á þremur höggum undir pari. Fyrir vikið er Valdís komin upp í 4. sæti í mótinu á einu höggi undir pari í heildina.

Valdís hóf leik á 1. teig í morgun og fór af stað með látum. Fugl á 1., 4., 7. og 8. holu komu henni beint í toppbaráttuna en hún tapaði ekki höggi á fyrri níu holunum.

Á seinni níu fékk Valdís skolla á 11. holu og fugl á 13. holu áður en hún fékk fjögur pör í röð. Á 18. holu fékk Valdís svo skolla og niðurstaðan 69 högg.


Skorkort Valdísar í mótinu.

Valdís er eins og fyrr segir í toppbaráttunni en þegar fréttin er skrifuð er hún í fjórða sæti á einu höggi undir pari í heildina. Karolin Lampert er í forystu á 5 höggum undir pari, einungis fjórum höggum á undan Valdísi. 

Besti árangur Valdísar á mótaröðinni er þriðja sæti en hún hefur náð þeim árangri tvisvar á ferlinum. Fyrst endaði hún í þriðja sæti á Sanya Ladies Open mótinu í fyrra og nú síðast í Ástralíu á Ladies Classic Bonville mótinu.

Lokahringur mótsins fer fram á morgun, sunnudag. Hér er hægt að sjá stöðuna.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is