Valdís hefur leik á miðvikudaginn á lokamóti Evrópumótaraðarinnar

Atvinnukylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir er meðal keppenda á lokamóti Evrópumótaraðarinnar, Omega Dubai Ladies Open, sem hefst á miðvikudaginn í Dubai. 

Flestir af bestu kylfingum mótaraðarinnar eru skráðir til leiks og munu úrslit stigalistans ráðast í mótinu. 

Georgia Hall frá Englandi er í forystu á stigalistanum og er það orðið ljóst að hún endar sem stigameistari. Það er í raun það eina sem er öruggt fyrir mótið en margt getur breyst á næstu dögum.

Valdís Þóra flaug upp í 50. sæti stigalistans eftir frábæran árangur í síðasta mánuði. Hún hefur þénað tæplega 25 þúsund evrur á tímabilinu og hefur verið stígandi í hennar leik.

Rástímar eru klárir fyrir fyrstu tvo dagana. Valdís Þóra hefur leik klukkan 11:25 að staðartíma á miðvikudaginn og 7:20 á fimmtudaginn. Hún leikur með Ursula Wikstrom og Valentine Derrey.

Hér er hægt að sjá allar helstu upplýsingar um mótið.


Georgia Hall.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is