Úrtökumót fyrir LPGA mótaröðina verður með breyttu sniði í ár

Úrtökumótið fyrir LPGA mótaröðina verður með breyttu sniði í haust, samkvæmt tilkynningu frá LPGA. Nýja mótið verður tekið strax í notkun í haust og mun fara fram á Pinehurst svæðinu í Norður-Karólínu.

Lokastig úrtökumótsins hefur verið 90 holur yfir fimm daga og hefur verið leikið í Daytona Beach í Flórída, nálægt höfuðstöðvum LPGA. Nú verða leiknar 144 holur í stað 90 og verður það leikið yfir tvær helgar á tveimur völlum. 

Í ár mun fyrsta umferðin fara fram dagana 24.-27. október og verður leikið á Pinehurst No. 6. Síðari umferðin verður leikin 31. október til 3. nóvember og fer sú umferð fram á Pinehurst No. 7. 

Það verður enginn niðurskurður og mun skor frá öllum átta hringjunum telja. 45 efstu kylfingarnir að loknum átta hringjum munu vinna sér inn þátttökurétt á LPGA mótaröðinni fyrir næsta ár, sem er aukning frá þeim 20 sem unnu sér inn þátttökurétt í fyrra. 

Einnig mega áhugamenn nú leika á öllum þremur stigum mótsins og nái þeir að tryggja sér þátttökurétt mega þeir bíða með að virkja kortið sitt þar til 1. júlí. Þetta er gert til þess að stelpur sem eru enn í háskóla geti klárað síðasta árið sitt og byrjað svo að keppa á LPGA mótaröðinni.