Um 30% aukning á heimsóknum erlendra kylfinga

Þing Golfsambands Íslands fór fram um helgina. Meðal þess sem fram kom á þingi sambandsins var greining á erlendum kylfingum sem léku golf á Íslandi árið 2017.

Alls spiluðu um 4.000 erlendir kylfingar golfhring á Íslandi árið 2017 og skilaði það rúmum 100 milljónum króna í tekjur til golfklúbba landsins. 10.000 golfhringir voru spilaðir og er aukningin 30% á milli ára. 

„Þeim erlendum kylfingum sem hingað koma fjölgar með hverju árinu,“ segir Magnús Oddsson, verkefnastjóri Golf Iceland, í skýrslunni.

„Þeir fimm golfvellir innan Golf Iceland sem eru með nákvæmar samanburðartölur á milli ára fengu í sumar 100% fleiri erlenda gesti en sumarið 2015. Tekjur einungis þessara fimm valla eru áætlaður um 25 milljónir af erlendum gestum í sumar.“

„A.m.k. tveir af þessum golfvöllum eru með meira en 50% af öllum sínum tekjum af vallargjöldum af erlendum gestum. Það þarf ekki að hafa mörg orð um hve miklu máli þessar auknu tekjur geta skipt einstaka velli og heildina.“


Brautarholtsvöllur hefur fengið góða dóma hjá erlendum kylfingum.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is