Tvöfaldur sigur hjá GA í 2. deild á Íslandsmóti golfklúbba

Golfklúbbur Akureyrar fagnaði í dag sigri í 2. deild karla og kvenna þegar Íslandsmót golfklúbba kláraðist. 2. deild kvenna var haldin á Bárarvelli hjá Golfklúbbi Vestarr en leikið var á Hamarsvelli í Borgarnesi í karlaflokki.

Í kvennaflokki hafði GA betur gegn Golfklúbbi Fjallabyggðar í spennandi leik þar sem tveir leikir af þremur fóru alla leið á 18. holu. Tvö efstu liðin í deildinni komust upp í 1. deild og verða því GA og GFB með þeim bestu á næsta ári.

Heimakonur í Gofklúbbi Vestarr mættu Golfklúbbi Sauðarkróks í leiknum um þriðja sætið og höfðu GSS betur 3-0. 

Í karlaflokki léku GA og Golfklúbbur Setbergs til úrslita. GA sýndi nokkra yfirburði í leiknum og hafði að lokum betur 3,5-1,5. Líkt og í kvennaflokki komust tvö efstu liðin upp í efstu deild. Golfklúbbur Vestmannaeyja endaði í þriðja sæti eftir sigur gegn Golfklúbbi Ísafjarðar.

Hér er hægt að sjá úrslit allra leikja í 2. deild karla.

Hér er hægt að sjá úrslit allra leikja í 2. deild kvenna.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is