Tony Romo fær þátttökurétt á PGA móti

Tony Romo er kannski ekki þekktasta nafnið í golfheiminum, en nafnið ætti að hringja einhverjum bjöllum hjá hinum almenna íþróttaáhugamanni. Romo var leikstjórnandi Dallas Cowboys í ameríska fótboltanum í 13 ár og er einn besti leikstjórnandi síðustu ára.

Hann hætti að leika fótbolta árið 2016 og hefur síðan þá verið að vinna við útsendingu á ameríska fótboltanum. Romo er mikill golfáhugamaður og hefur bæði spilað í úrtökumóti fyrir AT&T Byron Nelson mótið og Opna bandaríska meistaramótið.

Romo er með um helgina á AT&T Pebble Beach Pro-Am mótinu og spilar þar sem áhugamaður. Á blaðamannafundi í gær tilkynnti hann að honum hefði verið boðið að taka þátt í PGA móti síðar á þessu ári.

Boðið kom frá mótshöldurum, en mótið sem um ræðir er Corales Puntacana Resort & Club Championship og fer mótið fram í Dóminíska Lýðveldinu dagana 22.-25. mars. Mótið er eitt af smærri mótum PGA mótaraðarinnar, en sömu helgi fer Heimsmótið í holukeppni fram.

Það verður engu að síður gaman að fylgjast með þessum frábæra íþróttamanni spreyta sig á PGA mótaröðinni.


Tony Romo í leik með Dallas Cowboys.