Tommy Fleetwood: Stærsti dagur ferilsins

Tommy Fleetwood varð í gær stigameistari á Evrópumótaröð karla í golfi. Fleetwood lék vel allt tímabilið og átti titilinn fyllilega skilið, þrátt fyrir hetjulega baráttu Justin Rose á lokakafla tímabilsins.

Fleetwood sigraði á tveimur mótum á árinu og var 10 sinnum í einu af 10 efstu sætunum í þeim 24 mótum sem hann tók þátt í.

„Þetta er án vafa stærsti dagurinn á mínum ferli,“ sagði Fleetwood þegar titillinn var í höfn. „Ég átti erfitt með að hemja tilfinningarnar þegar þetta var ljóst. Ég fann einnig til með Justin (Rose) en það segir ýmislegt um hans karakter hversu vel hann tók þessu.

Það verður aldrei tekið af mér að ég vann Race to Dubai árið 2017 sem er ótrúlegur áfangi. Ég vona að ég geti bætt við mig öðrum stigameistaratitli. Stefnan er svo einnig sett á að sigra á risamóti og heimsmóti, það væri frábært að sigra á nokkrum stórum mótum áður en ég hætti.“

Tommy Fleetwood er fæddur árið 1991 og hefur verið atvinnumaður frá árinu 2010. Fleetwood sigraði á sínu fyrsta atvinnumóti árið 2011 á Áskorendamótaröðinni, þá einungis tvítugur að aldri. Tveimur árum seinna sigraði hann á Johnnie Walker Championship mótinu á Evrópumótaröðinni og nú í ár bætti hann við sig tveimur titlum og er kominn í topp-20 á heimslistanum.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is