Tommy Fleetwood ætlar sér stóra hluti á næstu árum

Tommy Fleetwood varð í fyrra stigameistari á Evrópumótaröð karla í golfi. Fleetwood lék vel allt tímabilið og átti titilinn fyllilega skilið, þrátt fyrir hetjulega baráttu Justin Rose á lokakafla tímabilsins.

Fleetwood sigraði á tveimur mótum á árinu og var 10 sinnum í einu af 10 efstu sætunum í þeim 24 mótum sem hann tók þátt í. Næsta skref hjá Englendingnum er að leika vel í stærstu mótunum.

„Árið í fyrra var mjög stöðugt hjá mér en mig langar að vinna meira,“ sagði Fleetwood við Guardian. „Það skiptir ekki máli hvaða mót það er, að vinna er ávani sem mig langar að viðhalda.“

Fleetwood er meðal keppenda á EurAsia mótinu sem hefst á föstudaginn þegar úrvalslið Evrópu keppir gegn úrvalsliði Asíu. Mótið er fínn undirbúningur fyrir evrópska liðið þar sem Ryder bikarinn fer fram seinna á árinu.

„Mig langaði að vera með í tveimur síðustu Ryder keppnum en var á endanum langt frá því. Staðan mín er betri í ár eftir frábært tímabil. Ryder bikarinn er einn stærsti íþróttaviðburður heims og mig langar vera meðal keppenda oftar en einu sinni.

Bandaríkjamenn eru með einn sterkasta hóp sem þeir hafa verið með í langan tíma en lið Evrópu verður langt því frá verra. Ég held að Ryder bikarinn geti orðið frábær í París.“

Ísak Jasonarson
isak@vf.is