Tiger Woods vonast til að allt komi heim og saman

Tiger Woods sagði í viðtali fyrir Opna bandaríska meistaramótið, annað risamót ársins, sem hefst nú á fimmtudaginn að fyrir ári síðan hafi hann nýlega verið búinn að fá grænt ljós að labba að nýju eftir aðgerð á baki.

„Ég var ekki með neinar væntingar að keppa aftur á þessu sviði,“ sagði Woods. „Á þessum tíma fyrir ári síðan voru læknarnir mínir nýbúnir að gefa mér grænt ljós á að labba að nýju.“

„Það er mikill bónus að vera hérna. Að vera með að nýju er frábær tilfinning og eitthvað sem ég tek ekki sem sjálfsögðum hlut.“

Hann sagði samt sem áður að þrátt fyrir allt sem hefði gerst þá væri hann svekktur að hafa ekki náð að sigra á þessu ári og vonaðist eftir að nú væri hans tími kominn til að sigra.

„Ég er búinn að gefa sjálfum mér möguleika á að sigra, sem var eitthvað sem ég vissi ekki hvort ég myndi nokkurn tímann eiga möguleika á aftur, en ég er samt ekki ánægður með að hafa ekki sigrað. Golf getur verið pirrandi og í mótunum sem ég hef spilað hefur alltaf eitthvað vantað. Vonandi er þetta vikan sem allt smellur og þá sjáum við hvað gerist. “