Tiger Woods þarf ekki á hóteli að halda yfir Opna bandaríska meistarmótið

Það er ljóst að Tiger Woods þarf ekki að bóka hótel yfir Opna bandaríska meistarmótið sem hefst 14. júní næstkomandi en leikið er á Shinnecock Hills vellinum.

Samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs þá mætti Woods á 155 feta (47 metrar) snekkju sinni á Gurney Montauk Yacht klúbbinn þar sem að hann mun vera yfir mótið.

Snekkjan er metin á 20 milljónir dollara og eru níu starfsmenn um borð og kostar 2 milljónir dollara að reka hana á hverju ári.

Þetta verður fyrsta Opna bandaríska meistaramótið hjá Woods síðan árið 2015 en þá missti hann af niðurskurðinum. Þetta ár markar einnig 10 ár síðan að Woods sigraði á sínu síðasta risamóti þegar að hann stóð uppi sem sigurvegari á Torrey Pines árið 2008.