Tiger Woods skráður til leiks á Opna bandaríska meistaramótinu

Aðeins nokkrum dögum eftir að hafa leikið á Masters mótinu í fyrsta skipti í þrjú ár, hefur Tiger Woods, 14-faldur risameistari, skráð sig til leiks á öðru risamóti ársins, Opna bandaríska meistaramótinu. 

Mótið fer fram á Shinnecock Hills vellinum í New York fylki. Þetta verður fyrsta Opna bandaríska meistarmótið hjá Woods síðan árið 2015. 

Woods var síðast með þegar mótið fór fram á Chambers Bay og komst hann þá ekki í gegnum niðurskurðinn. Þá lék hann fyrsta hringinn á 80 höggum, sem var jafnframt versti hringur hans í þessu móti frá upphafi. Annan hringinn lék hann á 76 höggum og var hann langt frá því að komast í gegnum niðurskurðinn. 

Fyrsta skiptið sem Woods keppti í Opna bandaríska meistarmótinu var árið 1995 og fór þá mótið fram á þessum sama velli. Þá þurfti hann að draga sig úr leik vegna meiðsla. Mótið var svo haldið á Shinnecock Hills aftur árið 2004. Þá endaði hann jafn í 17. sæti á 10 höggum yfir pari. 

Hér að neðan má heyra Woods tala um völlinn og virðist ljóst að ef mikill vindur verður á svæðinu þá verða aðstæður ansi erfiðar.