Tiger Woods sigraði á TOUR Championship mótinu

Bandaríkjamaðurinn Tiger Woods sigraði í dag á sínu fyrsta móti á PGA mótaröðinni frá árinu 2013 þegar hann stóð uppi sem sigurvegari á lokamóti tímabilsins, TOUR Championship. Woods var að sama skapi grátlega nálægt því að enda tímabilið sem stigameistari en Justin Rose tryggði sér stigameistaratitilinn með fugli á síðustu holunni.

Tiger Woods leiddi TOUR Championship mótið frá fyrsta degi og var á einum tímapunkti með fimm högga forystu á lokahringnum. Þrír skollar á seinni níu hleyptu hins vegar spennu í mótið en Woods sýndi stáltaugar á lokaholunum og sigraði að lokum með tveggja högga mun. Samtals lék hann hringina fjóra á 11 höggum undir pari.

Síðasti sigur Woods kom árið 2013 þegar hann sigraði á Bridgestone Invitational. Þrálát bakmeiðsli hafa haldið honum frá keppnisgolfi í langan tíma og því var sigurinn kærkominn í dag.

Líkt og komið hefur fram varð Justin Rose stigameistari en keppnin um titilinn var æsispennandi. Fyrir lokaholuna var ljóst að Rose þyrfti fugl til þess að tryggja sér stigameistaratitilinn og þær 10 milljónir bandaríkjadollara sem því fylgir og það var nákvæmlega það sem hann gerði.

Woods er nú kominn með 80 sigra á PGA mótaröðinni sem færir hann einu skrefi nær meti Sam Snead, sem sigraði á 82 mótum á PGA mótaröðinni á sínum farsæla ferli.

Billy Horschel endaði í öðru sæti á 9 höggum undir pari, tveimur höggum á eftir Woods.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.

Sjá einnig:

Ég trúi þessu varla
Myndband: Áhorfendur gengu með Woods og McIlroy að 18. flöt
Justin Rose varð FedEx stigameistari

Ísak Jasonarson
isak@vf.is