Tiger Woods og Rory McIlroy mætast í febrúar

Meira en tvö ár eru liðin frá því að Rory McIlroy og Tiger Woods öttu síðast kappi á sama móti. Nú hefur verið staðfest að Rory mun vera á meðal þátttakenda á Genesis Open mótinu sem fram fer í Los Angeles í febrúar og bendir allt til þess að Tiger verði þar líka, þar sem mótið er haldið af Tiger Woods Foundation.

Eins og flestir ættu að vita hefur Tiger verið frá keppni í þó nokkuð marga mánuði, en átti góða endurkomu nú fyrir skömmu þegar hann endaði jafn í 9. sæti á Hero World Challenge mótinu. Rory er einnig kominn á fullt aftur eftir að hafa jafnað sig á rifbeinsbroti sem hrjáði hann meirihlutann af 2017 tímabilinu. 

Síðast mættust kapparnir á PGA meistaramótinu árið 2015 og því spennandi að sjá hvernig þeim reiðir af í febrúar á næsta ári.