Tiger Woods risameistari að nýju eftir 11 ára bið

Fyrsta risamót ársins, Masters mótið, var rétt í þessu að klárast og var það Tiger Woods sem stóð uppi sem sigurvegari. Mikil spenna var á lokadeginum en Woods sigraði að lokum með einu höggi.

Fyrir lokahringinn var Francesco Molinari í efsta sætinu á 13 höggum undir pari, tveimur höggum á undan Woods og Tony Finau. Eftir 11 holur var Molinari enn með tveggja högga forystu en lenti svo í því að slá í vatnið á 12. holunni. Þá voru allt í einu fjórir kylfingar jafnir á 11 höggum undir pari. 

Molinari lenti svo líka í því að slá í vatnið á 15. holunni og voru þá möguleikar hans á sigri úti. Á meðan lék Woods við hvern sinn fingur og eftir frábært högg á 16. holunni var forysta hans orðin tvö högg.

Hann gat því leyft sér að fá skolla á loka holunni. Woods lék hringinn í dag á 70 höggum eða tveimur höggum undir pari og endaði því mótið á 13 höggum undir pari. Jafnir í öðru sæti urðu Dustin Johnson, Xander Schauffele og Brooks Koepka.

11 ár eru liðin frá síðasta sigri Woods á risamóti. Þetta er risamótssigur númer 15 hjá Woods og er hann því nú aðeins þremur sigrum á eftir Jack Nicklaus sem hefur unnið 18. Hann er einnig kominn með 81 sigur á PGA mótaröðinni og vantar því aðeins einn sigur til að jafna við Sam Snead sem unnið hefur flest mót á PGA mótaröðinni, eða 82 talsins.

Margir voru löngu búnir að afskrifa Woods en síðastliðið ár hefur hann sýnt það og sannað að hann á nóg eftir og kórónaði það svo með þessum sigri.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.

Rúnar Arnórsson
runar@vf.is