Tiger Woods frábær á þriðja degi Opna mótsins

Tiger Woods var rétt í þessu að ljúka leik á þriðja degi Opna mótsins sem fram fer á Carnoustie vellinum. Hann lék frábært golf í dag og kom í hús á 66 höggum eða fimm höggum undir pari.

Hann byrjaði hringinn frekar rólega þar sem að hann fékk þrjú pör á fyrstu þremur holunum. Þá kom 11 holu kafli þar sem að hann fékk sex fugla og fimm pör og var hann því kominn á sex högg undir par.

Woods tapaði svo einu höggi á síðustu fjórum holunum en hann fékk skolla á 16. holunni. Hann náði svo að bjarga frábæru pari á lokaholunni og endaði því á fimm höggum undir pari. Eftir daginn er hann samtals á fimm höggum undir pari og jafn í fimmta sæti þegar margir kylfingar eiga enn eftir að ljúka leik. Það verður því að teljast líklegt að hann verði í baráttunni um sigurinn á morgun.