Tiger Woods fékk ráð frá Mickelson

Tiger Woods og Phil Mickelson eru tveir af bestu kylfingum sögunnar og hafa lengi eldað grátt silfur saman. Undanfarin ár hefur fjandsemin hins vegar vikið hægt og rólega fyrir vinskap og viðurkenndi Tiger að Phil hafi gefið honum ráð vegna erfiðleika með vippin.

Árið 2015 tók Tiger þátt í nokkrum mótum en var þó þjakaður af bakmeiðslum sem gerðu það að verkum að hann átti í erfiðleikum með að vippa. Mickelson sendi honum þá skilaboð sem hvöttu hann til dáða og veittu honum ráð.

„Þegar ég var að glíma við bakmeiðslin og reyna að koma til baka og reyna að spila, þá var ég ekki mjög góður. Phil Mickelson sendi mér alltaf hvetjandi skilaboð. Ég var að vippa svo illa, bakið var ekki í góðu standi og ég kipptist mikið til. Hann bauðst margoft til að hjálpa mér með tæknina og ræða aðferðafræðina.“ 

Tiger og Phil munu leika saman í holli fyrstu tvo hringina á Players Meistaramótinu sem hefst á fimmtudaginn. Að sögn Tigers er hann þó orðinn mun betri núna og tilbúinn í slaginn.

„Þetta er öðruvísi núna. Mér líður betur og stutta spilið hjá mér er komið aftur.“