Tiger Woods ánægður með helgina

Tiger Woods náði sínum besta árangri á PGA mótaröðinni í langan tíma í gær þegar að hann endaði jafn í öðru sæti á Valspar Championship mótinu. Hann endaði mótið einu höggi á eftir Paul Casey.

Þrátt fyrir að ná ekki að sigra var Woods nokkuð sáttur með helgina, en viðurkenndi þó að það voru nokkrir hlutir sem hann hafi ekki alveg verið sáttur með á lokadeginum.

„Þetta var mjög góð vika fyrir mig. Ég hef bætt mig síðan ég spilaði síðast fyrir tveimur vikum.

Þetta var erfið vika, erfiðar aðstæður, erfiður völlur og ég þurfti að hafa mig allan við, en mér fannst ég gera vel. Mér leið vel að vera í baráttunni. Ég man hvernig er að vera í þessari stöðu og ofan á það þá er leikurinn hjá mér góður.

Því miður þá hitti ég boltann ekki alveg nógu nálægt til þess að setja niður pútt. Ég missti stutt pútt á fjórðu og hefði átt að fá fugl á 14. Þessi litlu mistök er hægt að telja saman í fjögurra daga móti.“