Tiger Woods á þremur undir | Tommy Fleetwood efstur

Fyrsti hringur Hero World Challenge mótsins fór fram á Bahamaeyjum í dag. Margir hafa beðið spenntir eftir mótinu, en Tiger Woods er á meðal þátttakenda og er þetta hans fyrsta mót í rúmlega 300 daga. Tiger stóð sig frábærlega, miðað við að hafa ekki keppt í 10 mánuði, og kom í hús á þremur höggum undir pari. Það er svo Tommy Fleetwood sem leiðir, á sex höggum undir pari.

Tiger lék nokkuð stöðugt golf í dag og fékk á hringnum fimm fugla, tvo skolla og restin pör. Hann lék því hringinn á 69 höggum, eða þremur höggum undir pari, eins og áður sagði. Eftir fyrsta hring situr Tiger jafn í 8. sæti. 

Englendingurinn Tommy Fleetwood, sem nýlega varð stigameistari á Evrópumótaröðinni, situr í efsta sæti, en hann lék hringinn í dag á 66 höggum. Tommy urðu á engin mistök í dag og fékk hann á hringnum sex fugla og restin pör. 

Tveir eru jafnir í 2. sæti á 5 höggum undir pari, en það eru þeir Rickie Fowler og Matt Kuchar.

Hér má sjá stöðuna í mótinu.