Woods og Spieth frábærir á þriðja degi Players mótsins

Tiger Woods var rétt í þessu að ljúka leik á þriðja hring Players mótsins. Woods lék frábært golf í dag, þá sérstaklega á fyrstu 12 holum hringsins. Hann endaði hringinn á 64 höggum, eða sjö höggum undir pari.

Woods hóf leik á fyrstu holu og byrjaði með látum. Hann fékk fjóra fugla á fyrstu fimm holunum og bætti svo við tveimur fuglum á holum sjö og níu og var því á sex höggum undir pari eftir níu holur. Woods hélt uppteknum hætti á síðari níu holunum, en hann fékk fugl á bæði 11. og 12. holu. Þá gaf hann aðeins eftir og fékk einn skolla og restina pör. 

Hann lauk því leik á 64 höggum, eða sjö höggum undir pari og er jafn í áttunda sæti á átta höggum undir pari þegar margir eiga enn eftir að ljúka leik.

Jordan Spieth var eins og Woods fyrir daginn á samtals einu höggi undir pari. Hann gerði sér lítið fyrir og lék líkt og Woods á 64 höggum. Fyrri níu holurnar lék hann á tveimur höggum undir pari. Á síðari níu holunum skipti hann um gír og fékk sex fugla, einn skolla og restina pör.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.